The L-Space Web

Grimmdarleikhúsið

Smásaga úr Diskheimi
eftir Terry Pratchett

Copyright © Terry Pratchett 1993


Það var fagur sumarmorgunn, svona sem fær mann til að gleðjast yfir því að vera lifandi. Og maðurinn hefði líklega verið ánægðari með að vera lifandi. Hann var nefnilega dauður. Erfitt væri að vera dauðari án sérstakrar þjálfunar.

"Jæja, já," sagði Colon liðþjálfi (Borgarvernd Ankh-Morpork, Næturvakt), og fletti í minnisbókinni sinni, "hingað til er dánarsökin sú að a) hann var barinn með minnst einu barefli b) hann var kyrktur með pylsulengju og c) minnst tvö dýr með stórar, beittar tennur tættu hann í sig. Hvað gerum við nú, Nobby?"

"Tökum þann grunaða fastan, þjálfi," sagði Nobbs undirliðþjálfi, og heilsaði að hermannasið.

"Grunaða, Nobby?"

"Hann," sagði Nobby og danglaði í líkið með stígvélinu sínu. "Mér finnst það ferlega grunsamlegt, að vera svona dauður. Svo hefur hann verið að drekka líka. Við gætum tekið hann fastan fyrir að vera dauður og drukkinn á almannafæri."

Colon klóraði sér í hausnum. Að handtaka líkið hafði, augljóslega, ýmsa kosti í för með sér. En...

"Ég held," sagði hann hægt, "að kafteinn Vimes vilji að málið verði leyst. Ég held að það sé best að þú farir með líkið á Stöðina, Nobby."

"Og megum við þá éta pulsurnar, þjálfi?" spurði Nobbs undirliðþjálfi.


Það var ekki auðvelt að vera yfirmaður lögregluliðs Ankh-Morpork, stórfenglegustu borgar Diskheimsins [*].

Vimes kafteinn velti því fyrir sér, þegar hann var í svartsýniskasti, að líklega væru til heimar án töframanna (sem létu ráðgátur um læst herbergi virðast hversdagsleg) eða uppvakninga (morðmál voru verulega undarleg þegar hægt var að kalla fórnarlambið til sem aðalvitni) og þar sem hægt væri að treysta hundum til þess að gera ekki neitt að næturlagi og fara ekki að spjalla við fólk. Vimes kafteinn trúði á rökvísi, á svipaðan hátt og maður í eyðimörk trúir á ís – þ.e. eitthvað sem hann vantar, en hann væri bara ekki á réttum stað. Þó ekki væri nema einu sinni, hugsaði hann með sér, þá væri nú indælt að geta leyst eitthvað.

Hann horfði á bláleitan skrokkinn á steinhellunni og fann votta fyrir örlitlum fiðringi. Það voru vísbendingar. Hann hafði aldrei séð almennilegar vísbendingar áður.

"Getur ekki verið ræningi, kafteinn," sagði Colon liðþjálfi. "Hann var með fulla vasa af peningum. Ellefu dollara."

"Það er nú varla fullt," sagði Vimes kafteinn.

"Það var allt í smáaurum, herra. Það er ótrúlegt að buxurnar hans hafi þolað álagið. Og ég hef komist að því með mikilli kænsku að hann var skemmtikraftur, herra. Hann var með nafnspjöld í vasanum, herra. ‘Chas Slumber, barnaskemmtir’."

"Má ég reikna með að enginn hafi séð neitt?" spurði Vimes.

"Sko, herra," sagði Colon liðþjálfi hjálpfús, "ég sagði Carrot lögregluþjóni að finna einhver vitni."

"Baðstu Carrot undirliðþjálfa að rannsaka morð? Á eigin spýtur?" spurði Vimes.

Liðþjálfinn klóraði sér í kollinum.

"Og hann spurði mig, hvort ég þekkti einhvern sem væri mjög gamall og fárveikur?"


Og í hinum töfrum búna Diskheimi er alltaf eitt öruggt vitni að hverju morði. Hann starfar við það.

Fólki fannst oft að Carrot lögregluþjónni, sá yngsti á Vaktinni, væri einfaldur. Og hann var það. Hann var óhemju einfaldur, en á sama hátt og sverð er einfalt eða fyrirsát er einföld. Auk þess hugsaði hann eftir þráðbeinni línum en flestir aðrir í alheimssögunni.

Hann hafði setið við dánarbeð gamals manns, sem sannarlega naut félagsskaparins. Og nú var kominn tími til að taka upp minnisbókina.

"Ég veit að þú sást eitthvað, herra," sagði hann. "Þú varst á staðnum."

JA, JÁ, sagði Dauðinn. ÉG VERÐ AÐ VERA ÞAR, ÞÚ VEIST ÞAÐ. EN ÞETTA ER AFAR ÓVENJULEGT.

"Sjáðu til, herra," sagði Carrot undirliðþjálfi, "eins og ég skil lagabókstafinn ert þú Vitorðsmaður Eftir Staðreyndina. Eða hugsanlega Fyrir Staðreyndina.

UNGI MAÐUR, ÉG ER STAÐREYNDIN.

"Og ég er laganna þjónn," sagði Carrot undirliðþjálfi. "Það verða að vera lög, þú skilur."

ÞÚ VILT AÐ ÉG... ÖÖÖ... DRAGI EINHVERN ÚR FELUM? KJAFTI FRÁ? HVÍSLI EINS OG LÍTILL FUGL? NEI. ÞAÐ DRAP ENGINN HERRA SLUMBER. ÉG GET EKKI HJÁLPAÐ ÞÉR ÞAR.

"Ja, ég veit ekki, herra," sagði Carrot, "ég held að þú hafir gert það."

FJANDINN.

Dauðinn horfði á eftir Carrot ganga í burtu og beygja sig þegar hann fór niður þröngt stigaop hreysisins.

JÆJA ÞÁ, HVAR VAR ÉG...

"Afsakið mig," sagði visni, gamli maðurinn á beddanum. "Það vill svo til að ég 107 ára. Ég hef ekki allan daginn."

AA, JÁ, ALVEG RÉTT.

Dauðinn brýndi ljáinn. Þetta var í fyrsta sinn sem hann hafði hjálpað lögreglunni við rannsókn. Það höfðu nú samt allir sitt verk að vinna.


Carrot undirliðþjálfi gekk léttur í spori um bæinn. Hann var með Kenningu. Hann hafði lesið bækur um Kenningar. Maður leggur saman allar vísbendingarnar og þá er maður kominn með Kenningu. Allt þurfti að passa saman.

Það voru pylsur. Einhver þurfti að kaupa pylsur. Og svo voru það smáaurarnir. Venjulega var það aðeins ein manngerð sem borgaði fyrir sig í smáaurum.

Hann leit við hjá pylsugerðarmanninum. Hann fann börn að leik og spjallaði við þau nokkra stund.

Svo rölti hann aftur í sundið þar sem Nobbs undirliðþjálfi hafði krítað útlínur líksins á götuna (og svo litað inn í þær og bætt við pípu og göngustaf og trjám og runnum í bakgrunninn – fólk hafði þegar látið sjö pens í hjálminn hans). Hann veitti athygli ruslahaug í hinum enda sundsins og fékk sér svo sæti á brotinni tunnu.

"Allt í lagi... þið megið koma út núna," sagði hann við heiminn almennt. "Ég vissi ekki að það væru enn til gnómar í heiminum."

Það skrjáfaði í ruslinu. Þeir þustu út – litli maðurinn með rauða hattinn, kryppuna á bakinu og bogna nefið, litla konan með skýluklútinn sem hélt á enn minna barni, litli lögreglumaðurinn, hundurinn með prestakragann um hálsinn, og pínulitli krókódíllinn.

Carrot undirliðþjálfi sat og hlustaði.

"Hann lét okkur gera það," sagði litli maðurinn. Hann var með furðu djúpa rödd. "Hann var vanur að berja okkur. Meira að segja krókódílinn. Það var það eina sem hann skildi, að berja hluti með priki. Og hann tók venjulega alla peningana sem hundurinn Toby safnaði og drakk sig fullan. Og svo hlupum við í burtu og hann náði okkur í sundinu og réðst á Judy og barnið og hann datt um sjálfan sig og –- "

"Hver lamdi hann fyrst?" sagði Carrot.

"Við öll!"

"En ekki mjög fast," sagði Carrot. "Þið eruð of lítil. Þið drápuð hann ekki. Ég hef fengið mjög áreiðanlegar upplýsingar um það. Svo ég fór og kíkti aftur á hann. Hann kafnaði til bana. Hvað er þetta?"

Hann lyfti upp lítilli leðurpjötlu.

"Þetta er svossl," sagði litli lögreglumaðurinn. "Hann notaði það fyrir raddirnar. Hann sagði að okkar væru ekki nógu fyndnar."

"Þannig á að gera það!" sagði sú sem nefndist Judy.

"Þetta var fast í hálsinum á honum," sagði Carrot. "Ég legg til að þið hlaupið í burtu. Bara eins og langt og þið komist."

"Við vorum að hugsa um að stofna samvinnufélag," sagði gnóminn sem var leiðtogi hópsins.

"Þú veist... tilraunaleikhús, götuleikhús, eitthvað í þá áttina. Ekki að berja hvert annað með prikum..."

"Gerðuð þið það fyrir börn?" sagði Carrot.

"Hann sagði að það væri ný tegund af skemmtun. Hann sagði að þetta yrði vinsælt."

Carrot stóð á fætur, og fleygði svosslinu á ruslahauginn.

"Fólk lætur þetta aldrei líðast," sagði hann. "Þannig á ekki að gera það."

[*] Sem er flatur og líður um himingeiminn á baki risastórrar skjaldböku, og af hverju ekki...


"Grimmdarleikhúsið" var upphaflega skrifað fyrir W.H. Smith tímaritið "Bookcase". Lengri útgáfan hér að ofan var seinna gefin út í dagskrá fyrir OryCon 15 ráðstefnuna.

Höfundurinn sjálfur hefur gefið góðfúslegt leyfi sitt fyrir þessari netútgáfu af sögunni, en hann á allan rétt á sögunni hvort sem um birtingu eða annað er að ræða. Sjálfur segir hann: "Ég vil hvergi sjá hana útgefna á prenti, en er alveg sama þótt fólk sæki hana sér til ánægju."

Þýðandi: Gunnar Freyr Steinsson – gunni@mikkivefur.is


[Up]
This section of L-Space is maintained by The L-Space Librarians

The L-Space Web is a creation of The L-Space Librarians
This mirror site is maintained by A.H.Davis